Dæmi A og B hér á undan sýna
að aldursleiðrétting var nauðsynleg. Það
hefði verið mjög rangur og hættulegur boðskapur
að segja konum að reykingar þeirra væru nánast
hættulausar.
Dæmi C sýnir að til að draga réttvísandi ályktanir er nauðsynlegt að taka allar mikilvægar breytur á réttu formi með í tölfræðilegt líkan.
Dæmi D sýnir að vitneskja um réttmæti (validation) mælitækja er nauðsynleg.
Dæmi E sýnir að þó eitt
lögmál virðist gilda í öllum undirhópum
þarf það ekki að gilda þegar hóparnir
eru lagðir saman.
Mæliferli og raunferli
Í dæmunum eru raktar nokkrar gildrur sem algengt er að falli í við gagnavinnslu. Fleiri og lævísari gildrur eru hugsanlegar. Hvað þýðir launakvarðinn og dreifningar þar? T.d. hvað gerist ef log-normal dreifðum undirmönnum er blandað saman við Pareto-dreifða yfirmenn? Tengsl mæliferlis og raunferlis geta verið með þeim hætti að nauðsynlegt er að hafa vönduð tölfræðilíkön fyrir hvoru tveggja. Fólk finnur iðulega það sem það vill í gögnum. T.d. sér einhver rispur á grjót og fer að lesa rúnir, síðar kemur í ljós að þetta eru jökulrispur.
Skilvirkir markaðir
Í fræðum um fjármálamarkaði segir kenningin um skilvirkan markað (EMH=efficient market hypothesis) að ekki sé hægt að spá framtíða verðum. Það felur í sér að fylgnistuðlar í ákveðnu safni eru allir 0. Útreikningar á gögnum á fjármálamörkuðum sýna iðulega annað. Þetta hefur valið mönnum heilabrotum og hafa verið skrifaðar lærðar bækur um MMS=Market-micro-structure. MMS-fræðin ganga út á að skýra hvernig mælt ferli tengist fræðilegu ferli. Þ.e. að skýra hvernig hegðun aðila á fjármagnsmarkaði myndar misvísandi fylgnistuðla. Það reynist mönnum ekki farsælt að ætla nota þessa fylgnistuðla í spám á sama hátt og ekki hefði verið farsælt að beina áróðri gegn reykingum eingöngu að körlum fyrir 15-20 árum, samanber dæmi B hér á undan.
Vinnumarkaður og eðli mismununar
Kenninguna um skilvirkan markað má færa upp á vinnumarkaðinn. Ef launagreiðandi stundar mismunun af einhverju tagi, t.d. ræður frænda sinn í óþarflega hátt starf er hann að taka á sig óþarfa kostnað. Slík hegðun hefnir sín þegar til lengdar lætur og í umhverfi mikillar samkeppni er hætt við að slíkir launagreiðendur verði undir. Alla vega er ekki svigrúm fyrir að stunda mismunun í miklu mæli. Einnig er ekki svigrúm fyrir almenna launamismunun. Það að launamismunun er ekki almenn þýðir að normal-línulegt tölfræðilíkan er örugglega ekki heppilegt líkan til að rannsaka slíkt. Við getum hugsað okkur hæð karla og kvenna. Heilbrigðir karlmenn eru almennt hærri en heilbrigðar konur og dreifing hæðar hjá heilbrigðu fólki er vel normaldreifð. Ég þekki ekki tíðni og umfang dvergvaxtar, veit ekki hvort sama hlutfall kvenna og karla eru dvergar né hvernig stærðardreifingu þeirra hópa er háttað. Ef leyfa á dvergvöxt og eðlilega vöxt í sama líkani þarf endurbætur á normal-línulegu líkani. Sama ætti við til þess að fá mat á hugsanlegri tíðni og umfangi mismununar á vinnumarkaði. Ef verið er að leita að mismunun er nauðsynlegt að gera sér hugmynd um á hvaða formi hugsanleg mismunun er. Er hún með sama hætti og munur á hæð karla og kvenna, nokkurn veginn normaldreifð með svipuðu staðalfráviki i hvorum hópi? Ef svo er er hún almenn og aðhvarfsgreining getur verið gott tæki. Eða er hún með sama hætti og dvergvöxtur, þ.e. að langflestir fá markaðslaun en einhverju hlutfalli er mismunað. Ef svo er þá er aðhvarfsgreining ekki heppilegt tæki.
Aðferðafræði
Mitt mat er að mismunun á ýmsu formi
geti vissulega komið fyrir en að hún geti ekki verið
almenn. Einstaklingum sem er mismunað eru "outliers" í
gagnasöfnum á sama hátt og hæð dverga í
gagnabanka um hæð fólks. Almennar reglulegar
launkannanir með tilheyrandi meðaltölum og staðalfrávikum
eru nauðsynlegar til að gera sér grein fyrir ástandi
og þróun á vinnumarkaði. Þau meðaltöl
munu hins vegar ekki gefa nothæfar vísbendingar um eðli
og umfang mismununar. Èg starfaði hjá Kjararannsóknarnefnd
í 5 ár og framkvæmdi aðhvarfsgreiningu (normal-línulegt
líkan í logaritmum af greiddu tímakaupi) með einföldum
aldurs/starfa/stöðu leiðréttingu. Þetta
gerði ég fyrir hvern ársfjórðung 1980-1989.
Dæmigerð gildi á kynstuðlinum voru fyrir verkafólk
5%-10% körlum í hag upp í 20-25% konum í hag,
fyrir afgreiðslufólk 5%-15% körlum í hag og fyrir
skrifstofufólk 15%-25% körlum í hag.
Ein af forsendum aðferðarinnar að staðalfrávik
sé jafnt milli hópa virtist falla í hópi skrifstofufólks
á þann veg að staðalfrávik afgangsliða
hjá körlum var miklu stærra en hjá konum(gæti
verið vísbendingu að breytur vantaði). Sömuleiðis
vissi ég af göllum í gögnum eins og lýst
er í dæmi D hér að ofan. Það ásamt
þekkingu minni á öðrum tölfræðilegum
atriðum gerði að mér finnst fráleitt að álykta
út frá þessu að um almenna mismunun milli
kynja sé að ræða. Á 5 ára ferli í
Kjararannsóknarnefnd sá ég aldrei nokkra vísbendingu
um mismunun eftir kyni eða öðru.
Almennar hugleiðingar
Í dönsku stúdentablað frá árin 1986 var lýst tíðnidreifingu nýnema í háskóla eftir kyni og námsgrein. Afgerandi niðurstaða var að konurnar völdu sér námsgrein með miklu atvinnuleysi og lágu kaupi en karlarnir völdu sé námsgrein með litlu atvinnuleysi og háu kaupi. Ég geri ráð fyrir að launadreifing þessa hóps í dag sé í samræmi við þetta val.
Hvers vegna svona val? Ég hef enga skynsamlega skýringu en mínar (óvísindalegu) ágiskanir eru eftirfarandi: Hugsanlegt er að vinna kvenna skili heimilum litlum tekjum vegna áhrifa skattkerfis. Á síðast liðnum árum hefur þróunin verið sú að byrjunarþröskuldur á vinnumarkaði hefur farið stækkandi (bæði hækkandi og breikkandi). Þeir sem eru að hugleiða að fara út á vinnumarkaðinn þurfa að vinna sig í gegnum breitt bil með háum jaðarsköttum. Á því bili (100-200þús í dag) skilar mikil vinna litlum ráðstöfunartekjur. Á heimili þar sem er unglingur, lítið vinnandi húsmóðir og mikið vinnandi heimilisfaðir, er hugsanlegt að unglingurinn hafi 0% jaðarskatt, heimilisfaðirinn 38% jaðarskatt og húsmóðirin mjög háan jaðarskatt. Hennar sókn á vinnumarkaðinn mun mótast af því. Sömu rök eiga einnig við um fatlaða og aðra bótaþega. Fyrir þessa hópa er hugsanleg launamismunun heldur ekki eins tilfinnanleg því munurinn hyrfi hvort sem er í tekjutenginguna. Fólk sem lætur mismuna sér niður fyrir markaðslaun gerir það annað hvort af fáfræði eða því er alveg sama vegna t.d. skattkerfisins.
Ef hagvaxtartækifæri felast í aukinni virkni kvenni verða þær að bera eitthvað úr býtum fyrir þessa auknu virkni. Núverandi skattkerfi með háum skattleysismörkum, tekjutengingu og háum jaðarsköttum á breiðum tekjubilum er ekki til þess fallið að örva fólk sem er rétt neðan við skattaþröskuld til dáða. Ef skattleysimörk væru lækkuð og dregið úr jaðaráhrifum er hugsanlegt að það hefði þau áhrif að sumir hinna lágt launuðu hæfu mikla sókn í verðmætasköpun. Þeir sem eftir sætu byggju við það að halda eftir lægri prósenstu af tekjum sínum en vegna aukins hagvaxtar væri það ef til vill lægri prósenta af hærri höfuðstól. Lægri skattleysismörk gætu því vel komið öllum til góða.